Virkjum lýðræði Íslands
24.1.2009 | 13:23
Hvernig virkjum við lýðræði Íslands?
Ég varð glaður er ég sá hreyfinguna Nýtt lýðveldi koma fram á sjónarsviðið því þeirra áherslur eru svipaðar mínum.
Um langt skeið hefur það angrað mig að geta ekki valið menn á þing fremur en flokka. Og í kjölfarið eftir að íbúar landsins (þar á meðal ég) hafa smalað flokkum á þing að horfa uppá fullorðið fólk tala gegn sannfæringu sinni á þingi af því að flokkurinn ákvað skoðun þess með einum eða öðrum hætti.
Hreyfingin Nýtt lýðveldi talar um finnsku leiðina sbr.
"Mér finnst rétt að forseti Alþingis sé þjóðkjörinn persónulegri kosningu samhliða öðrum þingmönnum. Skynsamlegt væri að taka upp finnsku aðferðina, þar sem allir frambjóðendur allra flokka hafa ákveðið númer og kjósandi velur einn frambjóðanda sem dregur síðan með sér aðra samflokksmenn. Þá er ekki raðað á lista, heldur er það á valdi kjósenda. Þannig yrði flokksveldið að nokkru brotið á bak aftur." Njörður P. Njarðvík - http://nyttlydveldi.is
Hið besta mál en ég legg tvennt til; hvorutveggja tengist ofangreindu, hið fyrra þó sínu meira en hið síðara.
Seinni tillagan þarf á rafrænu kosningakerfi að halda. Hún þarf ekki að koma til framkvæmdar án tafar en fljótlega myndi ég segja engu að síður. Rafrænt skilríkjakerfi er nánast tilbúið hér á landi og verður þannig úr garði gert að hverjum og einum íbúa verður gert kleift að eiga rafrænt skilríki til t.d. rafrænnar auðkenningar. Og þar með auðkenningar við rafrænar kosningar á netinu eða í kjörklefum. Að vísu var unnið að þessu verkefni af ríki og bönkum en nú hafa bankarnir hrunið. Og nú ferð þú að hugsa; hvað er maðurinn að pæla, að fara að setja þróun að slíkri tækni í einhvern forgang á meðan heimili og fyrirtæki landsins ramba á barmi gjaldþrots. Já, ég er að hugsa það. Því nú er lag. Bankarnir komnir í ríkiseigu og ríkið getur því beitt áhrifum sínum að einhverju leyti þar. Kerfið sorglega nálægt því að komast á koppinn einmitt á tímum sem við þurfum bráðnauðsynlega á því að halda. Möguleiki á virku lýðræði hlýtur að vera einhverra fjármuna virði.
Fyrri tillagan er þessi: Í stað finnsku leiðarinnar þá breytum við henni örlítið og köllum hana íslensku leiðina. Leyfum flokkunum að bjóða fram eftir sem áður. En breytum kosningafyrirkomulaginu þannig að kjósendur geti hreinlega valið sér 63 þingmenn af hvaða lista sem er inná þing. Út úr þessu mun koma á endanum svipuð prósentuskipting á milli flokka og verið hefur og þingmenn flokka munu raðast þannig inná þing. En bara þessi litla breyting um að kjósendur völdu sér menn í stað flokka mun ýta svo um munar undir virkt lýðræði hér á landi. Kjósendur munu fylgjast með sínum mönnum og auka aðhald um leið. Þannig að í stað núverandi ástands þar sem flokkarnir segja svo til hreint út hvaða skoðanir sitt fólk skuli hafa á hlutunum þá er með þessari litlu breytingu kominn annar þrýstihópur að baki þingmönnum, kjósendur sjálfir. Vissulega verða þingmenn svo að eiga það við sig sjálfa og samvisku sína hvort þeir hundsi þann þrýstihóp en mjög litlar líkur eru á að sömu kjósendur fylkist að baki þingmönnum sem slíkt gera í næstu kosningum. Og þá hugsa sumir; næstu kosningar gætu verið eftir langan tíma og því of lítið aðhald í því vopni. Sem er rétt í sumum tilvikum og þar kemur seinni tillaga mín til skjalanna.
Seinni tillaga mín er þessi: Gefum kjósendum kost á að kjósa um öll mál sem fyrir þingi eru með rafrænu kosningakerfi. Ef niðurstaða þeirra kosningar er á þann veg að 70% allra atkvæðisbærra manna í viðkomandi máli eru á öndverðum meiði við þingið þá ræður vilji fólksins för. Ég nefni 70% af því að ég tel að ef slík staða kemur upp í þjóðfélaginu þá sé gjá milli þings og þeirra sem þingmenn völdu orðin það breið í viðkomandi máli að ekki verður við unað. Þessa tölu má endurskoða áður en hún verður endanlega ákveðin og sett í stjórnarskrá. Ég nefni þessa tölu einnig því þá tel ég að skoðun kjósenda sé orðin það afgerandi að áhrif þrýstihópa s.s. fjölmiðla (sem höfðu sig mikið í frammi í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið, eðlilega) geti ekki kúvent henni eins og andstæðingar þessarar tillögu benda einna helst á sem rök gegn henni.
Svona virkjum við lýðræði Íslands.
![]() |
Hvítborðar boða Nýtt lýðveldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:39 | Facebook
Athugasemdir
Já ég held að það væri til bóta að leyfa kjósendum að velja einstaklinga í kosningum. Það má segja að þetta sé gert í prófkjörum núna en þá ert þú bara að velja fólk á lista eins flokks (þó menn geti reyndar kosið í prófkjörum allra flokka ef þeir vilja!). Svo eru ekki alltaf prófkjör þó þau fari vaxandi.
Dáldið hræddur við rafrænar kosningar fyrr en skilríkjakerfið verður orðið almennt og komin góð reynsla á það. Fólk verður að treysta því 100% og fullorðið fólk gerir það líklega ekki fyrr en efrir nokkurn tíma.
Annað sem ég tel vel athugandi er að kjósa framkvæmdavaldið sérstaklega eins og í USA. Við sáum um daginn þegar ríkisstjórn Bush var rekin til baka af þinginu í tvígang með aðgerðapakkann vegna efnahagshrunsins. Þett hefði verið óhugsandi á Íslandi.
Þorsteinn Sverrisson, 27.1.2009 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.