Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Þjóðin - við og þið sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar

Þegar ég las þessa grein fylltist mælirinn hjá mér þar sem ég taldi að um hroka af þinni hálfu, Sigmundur, væri að ræða.
Að þú værir að skamma fólk fyrir að hafa krafist þess að ráðamenn öxluðu ábyrgð.

Hví var mælirinn við það að fyllast? Vegna þess að þú hefur áður varpað fram fullyrðingum sem auðveldlega má líta á sem hroka.  
Þar má nefna ummæli þín um mótmælin á Austurvelli 3. nóvember síðastliðinn, en þar léstu í veðri vaka að ástæða þess fjölda sem á Austurvöll kom væri t.d. sú að það sé mun auðveldara nú en áður að hóa fólki saman t.d. á samfélagsmiðlum (http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Esumum-er-eg-sammala-og-sumum-ekki%E2%80%9C).  
Það breytir því ekki að fólkið tók sér tíma frá dagsins amstri til þess að láta skoðun sína í ljós á áðurnefndum degi á Austurvelli. Það lét sér ekki duga að "læka" við boðun mótmælanna á samfélagsmiðlum, sem hefði jú verið enn auðveldari leið.

En gefum okkur að þetta hafi ekki verið hroki. Gefum okkur að með því að tala um þjóð í þessu sambandi, hafir þú ekki eingöngu verið að tala um okkur óbreytta borgara landsins, heldur ekki síður ykkur sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar.

Það sem við óbreyttir erum búnir að læra af þessu er að íslenskir stjórnmálamenn þurfa gríðarlegt aðhald til þess að ráðamenn axli ábyrgð. Það þarf að spyrja sömu spurninga aftur og aftur til þess að á þeim sé mark tekið og þeim svarað.  Það þarf að halda málum á lofti mun lengur en maður telur að ætti að þurfa til þess að ekki sé framhjá þeim skautað án svara eða aðgerða. Við megum ekki lengur stunda hið alþekkta íslenska fálæti sem felst í því að þegar umræða hefur verið í gangi í einhvern tíma þá fer að kræla á röddum sem segja að menn eigi bara að horfa fram á veginn í stað þess að dvelja við hið gamla. Þannig gleymast mál og enginn axlar ábyrgð, sem hefur því miður allt of oft gerst.  

Aftur á móti virðist mér að þið sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar hafið ekki lært ýkja margt af þessu máli.

Þú segir í þessari grein að það sé ástæða fyrir alla að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Var það ekki einmitt þessi umræða sem varð til þess að Hanna Birna axlaði ábyrgð á sínum gjörðum.  Það hlýtur að vera af hinu góða að ráðamenn axli ábyrgð á gjörðum sínum, enda fylgir því mikil ábyrgð að vera kjörinn af þjóð til þings og síðar valinn til að gegna ráðherraembætti. Hana skal axla.

Þú segir í þessari grein að þú hafir stutt Hönnu Birnu til þess að halda áfram sem innanríkisráðherra. Það bendir til þess að þér þyki embættisfærslur hennar eðlilegar. Það bendir til þess að þér þyki ekki á hennar ábyrgð að ráða Gísla Frey til starfa, sem síðar var dæmdur fyrir sitt brot enda maður að meiri að koma fram og segja sannleikann í máli þessu.

Í öðrum löndum, eins og Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata benti á á þessum vettvangi, líta forsætisráðherrar á mál þar sem grunur leikur á vafasömum embættisfærslum sinna embættismanna sem veikan blett á sinni ríkisstjórn og hvetja þá því til að stíga til hliðar (http://www.nzherald.co.nz/nz/news/article.cfm?c_id=1&objectid=11247424). Þú styður hinsvegar slíka embættismenn áfram til starfa.

Við sem ekki sitjum við stjórnvölinn erum búin að læra margt af þessu máli. Það væri óskandi að þið sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar lærðuð eitthvað líka.


mbl.is Þjóðin læri af lekamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband