Þjóðin - við og þið sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar

Þegar ég las þessa grein fylltist mælirinn hjá mér þar sem ég taldi að um hroka af þinni hálfu, Sigmundur, væri að ræða.
Að þú værir að skamma fólk fyrir að hafa krafist þess að ráðamenn öxluðu ábyrgð.

Hví var mælirinn við það að fyllast? Vegna þess að þú hefur áður varpað fram fullyrðingum sem auðveldlega má líta á sem hroka.  
Þar má nefna ummæli þín um mótmælin á Austurvelli 3. nóvember síðastliðinn, en þar léstu í veðri vaka að ástæða þess fjölda sem á Austurvöll kom væri t.d. sú að það sé mun auðveldara nú en áður að hóa fólki saman t.d. á samfélagsmiðlum (http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Esumum-er-eg-sammala-og-sumum-ekki%E2%80%9C).  
Það breytir því ekki að fólkið tók sér tíma frá dagsins amstri til þess að láta skoðun sína í ljós á áðurnefndum degi á Austurvelli. Það lét sér ekki duga að "læka" við boðun mótmælanna á samfélagsmiðlum, sem hefði jú verið enn auðveldari leið.

En gefum okkur að þetta hafi ekki verið hroki. Gefum okkur að með því að tala um þjóð í þessu sambandi, hafir þú ekki eingöngu verið að tala um okkur óbreytta borgara landsins, heldur ekki síður ykkur sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar.

Það sem við óbreyttir erum búnir að læra af þessu er að íslenskir stjórnmálamenn þurfa gríðarlegt aðhald til þess að ráðamenn axli ábyrgð. Það þarf að spyrja sömu spurninga aftur og aftur til þess að á þeim sé mark tekið og þeim svarað.  Það þarf að halda málum á lofti mun lengur en maður telur að ætti að þurfa til þess að ekki sé framhjá þeim skautað án svara eða aðgerða. Við megum ekki lengur stunda hið alþekkta íslenska fálæti sem felst í því að þegar umræða hefur verið í gangi í einhvern tíma þá fer að kræla á röddum sem segja að menn eigi bara að horfa fram á veginn í stað þess að dvelja við hið gamla. Þannig gleymast mál og enginn axlar ábyrgð, sem hefur því miður allt of oft gerst.  

Aftur á móti virðist mér að þið sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar hafið ekki lært ýkja margt af þessu máli.

Þú segir í þessari grein að það sé ástæða fyrir alla að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Var það ekki einmitt þessi umræða sem varð til þess að Hanna Birna axlaði ábyrgð á sínum gjörðum.  Það hlýtur að vera af hinu góða að ráðamenn axli ábyrgð á gjörðum sínum, enda fylgir því mikil ábyrgð að vera kjörinn af þjóð til þings og síðar valinn til að gegna ráðherraembætti. Hana skal axla.

Þú segir í þessari grein að þú hafir stutt Hönnu Birnu til þess að halda áfram sem innanríkisráðherra. Það bendir til þess að þér þyki embættisfærslur hennar eðlilegar. Það bendir til þess að þér þyki ekki á hennar ábyrgð að ráða Gísla Frey til starfa, sem síðar var dæmdur fyrir sitt brot enda maður að meiri að koma fram og segja sannleikann í máli þessu.

Í öðrum löndum, eins og Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata benti á á þessum vettvangi, líta forsætisráðherrar á mál þar sem grunur leikur á vafasömum embættisfærslum sinna embættismanna sem veikan blett á sinni ríkisstjórn og hvetja þá því til að stíga til hliðar (http://www.nzherald.co.nz/nz/news/article.cfm?c_id=1&objectid=11247424). Þú styður hinsvegar slíka embættismenn áfram til starfa.

Við sem ekki sitjum við stjórnvölinn erum búin að læra margt af þessu máli. Það væri óskandi að þið sem við stjórnvölinn sitjið í umboði okkar lærðuð eitthvað líka.


mbl.is Þjóðin læri af lekamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjum lýðræði Íslands

Hvernig virkjum við lýðræði Íslands? 

Ég varð glaður er ég sá hreyfinguna Nýtt lýðveldi koma fram á sjónarsviðið því þeirra áherslur eru svipaðar mínum.

Um langt skeið hefur það angrað mig að geta ekki valið menn á þing fremur en flokka.  Og í kjölfarið eftir að íbúar landsins (þar á meðal ég) hafa smalað flokkum á þing að horfa uppá fullorðið fólk tala gegn sannfæringu sinni á þingi af því að flokkurinn ákvað skoðun þess með einum eða öðrum hætti.

 Hreyfingin Nýtt lýðveldi talar um finnsku leiðina sbr.

"Mér finnst rétt að forseti Alþingis sé þjóðkjörinn persónulegri kosningu samhliða öðrum þingmönnum. Skynsamlegt væri að taka upp finnsku aðferðina, þar sem allir frambjóðendur allra flokka hafa ákveðið númer og kjósandi velur einn frambjóðanda – sem dregur síðan með sér aðra samflokksmenn. Þá er ekki raðað á lista, heldur er það á valdi kjósenda. Þannig yrði flokksveldið að nokkru brotið á bak aftur." Njörður P. Njarðvík - http://nyttlydveldi.is

Hið besta mál en ég legg tvennt til; hvorutveggja tengist ofangreindu, hið fyrra þó sínu meira en hið síðara. 

Seinni tillagan þarf á rafrænu kosningakerfi að halda.  Hún þarf ekki að koma til framkvæmdar án tafar en fljótlega myndi ég segja engu að síður.  Rafrænt skilríkjakerfi er nánast tilbúið hér á landi og verður þannig úr garði gert að hverjum og einum íbúa verður gert kleift að eiga rafrænt skilríki til t.d. rafrænnar auðkenningar.  Og þar með auðkenningar við rafrænar kosningar á netinu eða í kjörklefum.  Að vísu var unnið að þessu verkefni af ríki og bönkum en nú hafa bankarnir hrunið.  Og nú ferð þú að hugsa; hvað er maðurinn að pæla, að fara að setja þróun að slíkri tækni í einhvern forgang á meðan heimili og fyrirtæki landsins ramba á barmi gjaldþrots.  Já, ég er að hugsa það.  Því nú er lag.  Bankarnir komnir í ríkiseigu og ríkið getur því beitt áhrifum sínum að einhverju leyti þar.  Kerfið sorglega nálægt því að komast á koppinn einmitt á tímum sem við þurfum bráðnauðsynlega á því að halda.  Möguleiki á virku lýðræði hlýtur að vera einhverra fjármuna virði.

Fyrri tillagan er þessi: Í stað finnsku leiðarinnar þá breytum við henni örlítið og köllum hana íslensku leiðina.  Leyfum flokkunum að bjóða fram eftir sem áður.  En breytum kosningafyrirkomulaginu þannig að kjósendur geti hreinlega valið sér 63 þingmenn af hvaða lista sem er inná þing.  Út úr þessu mun koma á endanum svipuð prósentuskipting á milli flokka og verið hefur og þingmenn flokka munu raðast þannig inná þing.  En bara þessi litla breyting um að kjósendur völdu sér menn í stað flokka mun ýta svo um munar undir virkt lýðræði hér á landi.  Kjósendur munu fylgjast með sínum mönnum og auka aðhald um leið.  Þannig að í stað núverandi ástands þar sem flokkarnir segja svo til hreint út hvaða skoðanir sitt fólk skuli hafa á hlutunum þá er með þessari litlu breytingu kominn annar þrýstihópur að baki þingmönnum, kjósendur sjálfir.  Vissulega verða þingmenn svo að eiga það við sig sjálfa og samvisku sína hvort þeir hundsi þann þrýstihóp en mjög litlar líkur eru á að sömu kjósendur fylkist að baki þingmönnum sem slíkt gera í næstu kosningum.  Og þá hugsa sumir; næstu kosningar gætu verið eftir langan tíma og því of lítið aðhald í því vopni.  Sem er rétt í sumum tilvikum og þar kemur seinni tillaga mín til skjalanna.

Seinni tillaga mín er þessi: Gefum kjósendum kost á að kjósa um öll mál sem fyrir þingi eru með rafrænu kosningakerfi.  Ef niðurstaða þeirra kosningar er á þann veg að 70% allra atkvæðisbærra manna í viðkomandi máli eru á öndverðum meiði við þingið þá ræður vilji fólksins för.  Ég nefni 70% af því að ég tel að ef slík staða kemur upp í þjóðfélaginu þá sé gjá milli þings og þeirra sem þingmenn völdu orðin það breið í viðkomandi máli að ekki verður við unað.  Þessa tölu má endurskoða áður en hún verður endanlega ákveðin og sett í stjórnarskrá.  Ég nefni þessa tölu einnig því þá tel ég að skoðun kjósenda sé orðin það afgerandi að áhrif þrýstihópa s.s. fjölmiðla (sem höfðu sig mikið í frammi í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið, eðlilega) geti ekki kúvent henni eins og andstæðingar þessarar tillögu benda einna helst á sem rök gegn henni.

Svona virkjum við lýðræði Íslands.


mbl.is Hvítborðar boða Nýtt lýðveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband